Suðurnesjafólk á meðal þátttakenda í einum stærsta íþróttaviðburði ársins
Í sumar munu heimsleikar Special Olympics fara fram í Berlín í Þýskalandi. Þrjátíu íslenskir þátttakendur, auk aðstandenda þeirra, taka þátt í leikunum í ár sem hefjast á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní, og þeim lýkur þann 25. júní. Búist er við að ríflega eitt hundrað stuðningsmenn komi til með að fylgja hópnum.
Lögreglumaðurinn Daði Þorkelsson fer í kyndilhlaup lögreglumanna fyrir heimsleika Special Olympics í sumar og þá verða Keflvíkingurinn Eva Hrund Gunnarsdóttir og Njarðvíkingurinn Lilja Árnadóttir þjálfarar í fimleikum við leikana.
Kylfingurinn Sigurður Guðmundsson úr Suðurnesjabæ keppir í golfi, hann er alvanur golfíþróttinni en auk þess að leika golf vann hann m.a. í mörg ár sem vallarstarfsmaður á Hólmsvelli í Leiru, golfvelli Golfklúbbs Suðurnesja. Sigurður segir sitt markmið á leikunum vera að spila stöðugt golf og hafa gaman. Þá ætlar hann að eiga góða stund með keppendum og öðrum auk þess að eignast nýja vini. Móðir Sigurðar, Karen Ásta Friðjónsdóttir, mun halda utan um fjölmennan hóp forráðamanna sem fer við leikana.
Nóg af Suðurnesjafólki á leið til Þýskalands í sumar á einn stærsta íþróttaviðburð ársins.
Flott kynningarmyndband um leikana
Suðurnesjamaðurinn Magnús Orri Arnarson hefur gert kynningarmyndband um heimsleika Special Olympics en myndbandið er vönduð og skemmtileg samantekt um þátttöku Íslands, keppendur, þjálfara og spennuna sem fylgir því að taka þátt í einum allra stærsta íþróttaviðburði heims. Þettat er heldur betur glæsilegt verkefni sem Magnús hefur unnið að síðustu sex mánuði en hann hefur verið að hasla sér völl í kvikmyndagerð á undanförnum misserum og er meðal umsjónarmanna sjónvarpsþáttann vinsælu Með okkar augum. Myndbandið má sjá í spilaranum hér að neðan.